Samstaðan í sorpinu

Fyrir nokkrum dögum opnaði Íslenska gámaþjónustan glæsilega sorpstöð á gamla gámasvæðinu ofan við Hrísmýri á Selfossi og ekki annað hægt en að dáðst þar að frumkvæði og myndarskap. En um leið vekur uppbygging þessara mála upp spurningar um samhæfingu og samstöðu íbúa héraðsins þar sem á sama tíma undirbýr nú Sorpstöð Suðurlands opnun umhleðslustöðvar á nýju gámasvæði neðan við Selfossflugvöll.

Eftir að urðungarstað Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu lokaði fyrir fáeinum misserum hefur orðið mjög ör þróun í þessum geira á svæðinu og greinilegt að veruleg samkeppni er hafin um sorpið á Suðurlandi. Það er ekki nýtt í veraldarsögunni að sorp sé talinn gróðavegur og í heildina getur heilbrigð samkeppni haldið niðri kostnaði í þessum efnum, en henni þarf þó að setja eðlilegar skorður.

Hér á landi eins og allsstaðar í hinum vestræna heimi eru nú auknar kröfur um flokkun sorps, bæði inni á heimilum og í fyrirtækjum. Til þess að hún verði árangursrík þurfa flokkunarreglurnar að vera skýrar og helst eins um allt land. Það er lágmarkskrafa að sömu reglur gildi innan hvers sveitarfélags en nú hefur það gerst að samkeppnin hefur ruglað þá mynd. Íslenska gámafélagið og Gámaþjónustan eru fyrirtæki sem keppa sín í milli meðal annars hér í sveitarfélaginu Árborg og innleiða í reynd mismunandi flokkunarreglur. Þriðja regluverkið kemur svo með bláu tunnunni frá Sorpstöð Suðurlands, en sú stofnun er í eigu sveitarfélaganna á svæðinu.

Það er mikilvægt að þessum málum sé komið í skynsamlegri farveg en nú er. Þar er grundvallaratriði að regluverk sorpmála og forsjá  málaflokksins séu alfarið á hendi sveitarfélaga enda er málaflokkurinn hluti af grunnþjónustu þeirra. Eftir sem áður getur verið hagkvæmt að bjóða út einstaka verkþætti.

VG í Árborg mun hér eftir sem hingað til beita sér fyrir samstöðu allra sveitarfélaga á Suðurlandi í þessu mikilvæga hagsmuna- og umhverfismáli. Jafnframt teljum við rangt að fela einum einkaaðila algera forsjá þessara mála. En við erum því meðmælt að einstakir framkvæmdirþættir séu í höndum einkaaðila og þá með þeim hætti að við útboð eigi rekstraraðilar í heimabyggð jafnan kost á við stórfyrirtæki að keppa um verkin.

Lykilatriði er að allir starfi eftir sömu reglum og þá getur verið full þörf á allri þeirri uppbyggingu sem orðin er og jafnframt rými fyrir heilbrigða samkeppni í útboðum.

Höfundur er atvinnurekandi og skipar 2. sæti á lista VG í Árborg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband